Toppurinn á ísjakanum og ,,kosningaréttur" barna

Dóttir mín hittir oft naglann á höfuðið. Þegar Byrgis- og Breiðavíkurmálin voru að koma upp sagði hún að þetta væri kannski bara toppurinn á ísjakanum. Fleira ætti eftir að koma í ljós. Aldrei þessu vant vona ég að hún hafi ekki rétt fyrir sér, en ég óttast að hún hafi það. Í rauninni er bara tvennt að gera núna:

1. Fara að veita því fólki sem á um sárt að binda hjálp. Það er eitthvert fát og fum í kerfinu, kannski tregða, kannski óöryggi. Því miður er þetta dæmi sem aðrar þjóðir hafa gengið í gegnum, bæði varðand vonda meðferð á börnum og eins eftirlits- og úrræðaleysi gegn misneytingu fólks sem notar trúarhópa sem skálkaskjól. Í fyrrnefnda málinu hefur safnast upp sársaukafull reynsla hjá nágrannaþjóðunum og nú er það okkar að gera ekki sömu mistök og reyna að apa það eftir sem vel er gert.

2. Bæta mannréttindi barna. Sem betur fer eru annars konar úrræði og miklu betri til núna fyrir börn í vanda, hvort sem er vegna heimilisaðstæðna eða annarra vandamála. Var eitt sinn á ferðalagi um Suðurland með Drífu Kristjánsdóttur á Torfastöðum þegar fjörleg unglingsstelpa kom hlaupandi og rauk upp um hálsinn á henni, fyrrverandi fósturbarn hjá henni, og greinilegt að þessi stelpa hafði búið við gott atlæti. Veit af fleiri dæmum um afskaplega vel heppnuðum úrræðum og vel vinnandi aðilum í ,,kerfinu". En - það má gera betur. Enn er ekki búið að finna úrræði til að vernda börn fyrir brotamönnum sem áreita þau, jafnvel innan veggja heimilanna. Enn eru mörg börn utanveltu í skólakerfinu. Lengi hefur verið þannig búið að barna- og unglingageðdeild að hún nær alls ekki að sinna öllum sem á þarf að halda tímanlega. 

Fyrir nokkrum dögum heyrði ég utan að mér að einhverjir væru að tala um hvort við værum kannski komið að því að þurfa að huga að kosningarétti barna. Plagsiður minn er að hlusta á fréttaþætti í bíl, svissa ört milli stöðva og lesa blöðin á hlaupum, þannig að ég man ekkert hvar og náði því ekki að finna þetta á netinu aftur. Kannski geta lesendur bloggsins hjálpað mér um þessar upplýsingar, hef áður notið góðrar hjálpar ykkar..... en alla vega leikur mér forvitni á að vita hversu mikil alvara þessu fólki var. Fyrir einhverjum 15-20 árum lenti ég nefnilega á frekar hefðbundnum (ég sagði ekki leiðinlegum) fundi um jöfnun atkvæðisréttar. Og þar vogaði ég mér að minna á að hægt væri að jafna atkvæðisrétt á ýmsa vegu, ekki bara milli kjördæma (en engum datt í hug annað en nákvæmlega það). Minnti á eins og sönnum sagnfræðingi sæmdi að stutt væri, á sagnfræðilega vísu alla vega, síðan konum og hjúum var treyst fyrir atkvæðisrétti. Og spurði hvort það væri kannski réttlátast að jafna atkvæðisrétt alveg, þannig að hverjum einstaklingi fylgdi eitt atkvæði. Auðvitað setti ég hundrað fyrirvara, ætlaði alla vega ekki að láta hanka mig á að ég væri að leggja til að fólk leggðist í barneignir til að öðlast ,,yfirráð" yfir fleiri atkvæðum. EN, það sem ég meinti var að það væri allt í lagi að hugsa aðeins út fyrir þröngan ramma. Og enn er ég á sömu skoðun. - Þetta er sem sagt fyrsta innleggið í ,,þetta sagði ég ykkur" síðuna mína. 

Þessi hugmynd var auðvitað sett fram í bríarí, ætlað að brjóta upp umræðuna og fyrst og fremst að fá fólk til að hugsa hverra hagsmuna við ættum að gæta. Hafði auðvitað þveröfug áhrif, enginn fór að hugsa og almennt held ég bara að fólk hafi verið hneykslað, enda gerist það oft þegar maður reynir að brjóta upp fastskorðaða umræðu. 

Reyndar heyri ég að einhverjir félagar mínir í VG vilja lækka kosningaaldurinn - svo sem ekki beint angi af sömu umræðu (eða hvað?) - en óneitanlega er ég sammála. 

 

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Ég man eftir að hafa heyrt Torfa Túliníus háskólakennara í frönsku tala um að börn ættu að fá kosningarétt.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 14.2.2007 kl. 09:02

2 identicon

Ber sýslumanninum á Selfossi ekki skylda til þess að halda uppboð á tækjabúnaði Byrgisins?

Guðmundur G. Hreiðarsson 16.2.2007 kl. 00:21

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband