Haustið sem ekki kom ...

Eins og það var gaman að halda hásumrinu fram í miðjan október, þá er ég hálfpartinn óhress með að fá veturinn beint í andlitið. Ekki svo að skilja að það hafi ekki verið fallegt að sjá snjóinn á trjágreinunum í Fossvogskirkjugarði í dag, það var fallegt. En snjó og frosti fylgir stundum hálka og mér er meinilla við hana. Sömuleiðis er ég orðin eldheitur aðdáandi langra daga og þurra eftir að ég féll fyrir golfinu, þannig að skammdegið er ekki nærri eins spennandi eins og á árunum um tvítugt þegar það var miklu lógískara að koma af balli út í náttmyrkrið heldur en koma úr reykmettuðum og skuggsýnum sölum sveitaballanna á sumrin og út í sólskin og blíðu (uppúr klukkan tvö að nóttu, því þá voru böllin ekki lengri). Vissulega verður gaman að sjá jólaskreytingarnar sem fyrr en varir verða komnar upp, en samt, hvar eru haustlaufin, mildu haustdagarnir, aðlögunin?

Það hefði verið svo upplagt að hafa haust fram í miðjan desember, en snögg ferð á Snæfellsnesið í 10 stiga hita og haustlitum í upphafi október reddaði haustlitunum þetta árið, vegna anna var sumarbústaðurinn vanræktur eftir að haustlitirnir fóru í alvöru að njóta sín. En það kemur haust í stað þessa týnda hausts og ég ætla mér ekki að missa af því.

CIMG2805


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband