Afmæli á ,,ösku"degi og ,,hinir" sem áttu afmæli 4. júní

Það er alltaf jafn gaman að eiga afmæli en ég held samt að ytri umgerð þessa nýliðna afmælisdags míns hafi verið ein hin undarlegasta. Við á höfuðborgarsvæðinu höfum lítið þurft að finna fyrir öskufallinu til þessa, þótt ferðaáætlanir sumra okkar hafi raskast nokkuð, þá er það vegna ösku sem stödd hefur verið uppi í lofti en ekki verið að falla niður á bílana okkar. Hugurinn hefur vissulega leitað af og til austur í fallegu Fljótshlíðina mína, þar sem ég var í sveit í sex sumur, og vissulega væri það forvitnilegt að starfa við grasræktartilraunir á tilraunastöðinni á Sámsstöðum við þessar aðstæður eins og ég gerði þessi sumur, en aðeins forvitnilegt, ekki skemmtilegt og sannarlega önugt fyrir konu með linsur í augunum, eins og ég er með.

Í dag fengum við hænufetsskammt af því sem fólkið fyrir austan má búa við og það var stórundarlegt að upplifa öskudag í sumarbyrjun. Kannski verður þetta sumar svolítið undarlegt. Tékkaði auðvitað á vefmyndavélinni í Borgarnesi (á menntaskólanum) og sá að þangað fór askan líka, litlu síðar en sú sem kom til okkar.

Hvernig ætli okkur hér, sem fáum smáskammtana, væri innanbrjósts ef við ættum lífsafkomuna undir búskap og byggjum við margfaldan þennan skammt?

Um áramót, á afmælisdögum og öðrum tímamótum er alltaf gaman að velta fyrir sér lífinu og tilverunni og þó ég hafi það ekki að lífsstarfi eins og tveir af þeim sem deila með mér afmælisdegi, Gunnar Dal og Páll Skúlason heimspekingar. Við sem eigum afmæli á þessum degi, 4. júní, erum reyndar úr öllum áttum, auk heimspekinganna tveggja deili ég afmælisdegi með jafn ólíku fólki og geggjaranum Russel Brand, Angelinu Jolie og Gyðu Guðmundsdóttur sem var önnur af stofnendum McDonalds á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband