Færsluflokkur: Ferðalög

En aftur á móti, ef það kæmi vont veður í vitlausu landi ...

Ýjaði að því í seinasta bloggi að stundum stæðist veður erlendis ekki væntingar. Ein vinkona okkar fór í virkilega regn-ferð til Havaí og fimm af sjö dögum okkar mömmu á Rarotonga í Suður-Kyrrahafi um árið voru votir. Engu að síður dásamleg vika á yndislegri eyju. Þetta bitnar ekki síst á staðföstu veðurflóttafólki, en annar markhópur er auðvitað vatnslitafólk á leið í skiplagða útimálun. Gríðarlega vel valinn markhópur. Glöggir veðurfræðingar spáðu úrhellisrigningu fyrsta daginn minn í Cordóba í mars, en þá forðuðum við, Íslendingarnir þrír, okkur undir stórar svalir sem nóg var um þar. Pokinn með hátíðarskjölunum varð að vísu gegndrepa en fyrir eitthvert kraftaverk slapp sýningarskráin sem er stórkostlegt rit. Og eins og sumir vina minna vita endaði þessi vika bara æðislega. 

unnamed (1)

Nú á ég sem sagt eitt erindi í útimálun erlendis í sumar. Eftir masterclass hjá Alvaro Castagnet í Cambridge í fyrra (í fínu veðri) var ég nefnilega bara rétt að byrja að vinna úr því sem hann hefur fram að færa. Þótt hann komi til Íslands í sumar (Vatnslitafélagið tók myndarlega við boltanum sem hann sendi mig með til Íslands) þá ganga þeir fyrir um pláss hér á landi sem ekki hafa áður verið hjá honum. En konur sem eiga syni í Amsterdam leysa það auðvitað með því að fara bara á næsta námskeið á undan, útimálun í Amsterdam. Og það geri ég. Veðrið þar hefur verið alveg stórkostlegt að undanförnu, en langtímaspáin er svona (sjá mynd), svo ég pantaði og fékk sendar 2 mismunandi tegundir af regnhlífastöndum til að skrúfa á trönurnar mínar (sjá næstu mynd).

2023-06-07_17-11-03 unnamed


Ef það kæmi gott veður ...

Merkilegt hvað sumir (ég) eru hikandi við að bóka ferðir fram í tímann á sumrin. Ef ske kynni að það kæmi gott veður á heimaslóðum, þá er auðvitað ómögulegt að missa af því. Bóka helst ekki utanferð að sumri nema hafa aðra ástæðu til þess en sólarfíkn. Kannski er ég ein um það, en grunar þó að við séum fleiri. Sumarblíða uppi í sumarbústað eða við Bessastaðatjörn, golfdagar í pilsi, auðvitað er ekki hægt að missa af svoleiðis löguðu. Haustið þegar við Ari fórum í sólarlanda- og berjaferð á Austurland verður líka alltaf í minnum haft. 

Langtímaspár lofa ekki endilega góðu, en stöku veðurfræðingar hætta sér í að vera bjartsýnir. 

Yfirleitt hef ég frekar tekið eiginlegt sumarfrí á veturna og eftir að hafa streist á móti öllum Kanaríferðum fórum við Ari minn í tíu skipti á 12 árum í vetrarferðir þangað í byrjun þessarar aldar. Fleiri staðir hafa orðið fyrir valinu á veturna, vestan hafs en þó aðallega suðaustan. Það er nokkurn veginn hægt að treysta því að veðrið sé betra á suðlægum slóðum en hér heima á veturna en á sumrin. Núna snemma sumars hef ég reyndar heyrt af óvenju mörgu veðurflóttafólki héðan af suðvesturhorninu, sem flúið hefur til Spánar, Ítalíu eða á Melrakkasléttu. 

2012-07-14 19.53.41 (3)

Spurði vini mína á Facebook um daginn hvort bítlalagið væri í meira uppáhaldi, Here comes the sun eða I´ll follow the sun. Mér finnst öruggara að halla mér að því síðarnefnda, og auk þess er það miklu fallegra lag. Hef skásta reynsluna af því að taka svoleiðis ákvarðanir þegar nokkuð traust veðurspá liggur fyrir og fara þá ekki um of langan eða dýran veg. Ótrúlega góð spá í Borgarfirði fyrir áratug eða svo og einn frídagur í vinnunni varð eftirminnilegur, í fyrra elti ég sólina frá London til Norwich og þegar spáð var úrkomu í Sitges á Spáni dreif ég mig suður með ströndinni og fann sólina heita og góða. Ekki gengur þetta alltaf vel, frétti af einum sem ætlaði að ,,skjótast" til Egilsstaða í góða veðrið um einhverja af nýliðnum helgum, en var ekki til í að borga flugfargjald öðru hvoru megin við fimmtíu þúsund kallinn fyrir nokkra klukkutíma í sólinni, enda gisting ekki alltaf á lausu í áfangastað og heldur ekki gefin.  

Framundan er heilt sumar, alls konar veður út um allar trissur, hitabylgjur, meinhægt veður, skrifstofufárviðri, Jónsmessuhret eða bara rigningartíð og rok. Sumir panta sér dýrar ferðir í sólina án þess að sjá sólina fyrir veðrinu, aðrir eru heppnari. Sumir halda því fram að það sé ekki til vont veður, bara vitlaus fatnaður. 

Við vitum auðvitað öll af því að þessi forgangsröðun okkar er lúxusvandamál, í heimi þar sem veðuröfgar verða sífellt fleirum að fjörtjóni, stríð geisa og alvarlegur uppskerubrestur ógnar lífi fólks. En þetta er nú samt það sem fólk er að tala um, sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu landans og hlýtur að teljast hinn eini, sanni þjóðarpúls.  


Talað við þrælkurteisan og hjálpsaman þjónustufulltrúa eftir 2ja mínútna bið

Lenti í svolitlu undarlegu í fyrradag. Svo vildi til degi fyrr að hræðilegt vefviðmót erlends flugfélags, sem var það eina sem hentaði mér að nota til að koma mér á vatnslitavinnustofu og heilsa upp á son minn í leiðinni, hafði orðið til þess að ég glataði gersamlega bókunarnúmerinu. Án þess var ég heillum horfin. Um tíma hélt ég að færslan fyrir flugferðina hefði ekki farið í gegn, en innan sólarhrings kom í ljós að hún var komin á kortayfirlitið mitt. En enginn kom staðfestingarpósturinn, og ég sem yfirleitt tek skjáskot af keyptum flugbókunum hafði einmitt í þetta skiptið sleppt því. Nú kaupi ég yfirleitt ekki dýrar flugferðir og fjárhagsskaðinn hefði verið bætanlegur, en mér er alveg bölvanlega við að láta fara illa með mig og sérlega viðkvæm fyrir því ef lélegar hugbúnaðar(prófanir) valda. Svo ég gerði það sem ég helst aldrei geri, hringdi í flugfélagið sem um ræðir. Var auðvitað vel birg af lesefni, gott ef ekki vatnslitablokk líka, og bjó mig undir vetursetu við símann, einkum eftir að ég hafði uppgötvað nýjasta trikkið hjá einu flugfélagið (að vísu slapp ég þá með 100 mínútna bið) en þar byrjaði ég númer 46 í röðinni og vann mig svo upp goggunarröðina þar til ég var orðin ,,næst" og eyddi síðan meira en hálftíma í að vera ýmist ,,næst" nr. 2 í röðinni eða þaðan af fjær þjónustufulltrúanum.

En þennan dag gerðust undur og stórmerki. Í fyrsta lagi (eftir að hafa spilað píanókonsert á lyklaborðið á símanum) var mér sagt að ég væri næst í röðinni og í öðru lagi VAR ég næst í röðinni og það eftir varla meira en tveggja mínútna bið. Þrælkurteis þjónustufulltrúi kynnti sig og ég sagði honum erindi mitt. Við höfum varla spjallað meira en korter allt í allt. Tilgreindi nafn, áfangastað og pantaðan flugdag, hann var snöggur að finna þetta til. Eina samskiptavandamál okkar var eins og einhver Agöthu Cristie saga: N eða M. Það var ekki fyrr en ég sagði honum hreint út að það væri ekkert M (Metro) í nafninu mínu né netfanginu að samskipti okkar urðu fullkomlega góð. Hann lofaði tölvupósti og varð líka við beiðni minni um að gefa mér upp bókunarnúmerið gegnum síma, sem reyndist síðan rétt, þegar bókunarupplýsingarnar fóru að streyma í tölvupósthólfið mitt. 

Það er engin furða að konu sé mál að blogga.

n-or-m


Vísað úr lest - af og til síðan 1973

Þótt ég elski lestarferðir og sé einstaklega prúð og góð alltaf þegar ég stíg um borð í lestir, þá hef ég lent í því undarlega oft og af ótrúlega ólíkum ástæðum að vera vísað úr lestum. Bara einu sinni (æ jú, tvisvar, þrisvar víst) var mér einni vísað út, en yfirleitt með öðrum. Um sumt þetta hef ég fjallað í ferðaþáttum í útvarpi, eflaust bloggað um eitthvað en sumt hefur bara verið í rólegheitum að gerjast í kollinum, það var ekki fyrr en um daginn þegar mér var enn einu sinni vísað úr lest, að það rann upp fyrir mér að þetta var að verða kækur. 

Þetta byrjaði sennilega ekki fyrr en rétt fyrir jólin 1973 þegar ég var á leið að heilsa upp á foreldra mína, sem þá bjuggu rétt hjá Bristol í Englandi. Mátti þakka fyrir að hafa komist í flug þann daginn, því fram til klukkan þrjú var enn flugfreyjuverkfall. Fór frá Heathrow með rútu til Reading og átti svo að taka lestina um kl. níu um kvöldið í vesturátt og fara út í smábænum Yatton. Fylgdist vel með en allt í einu var ég komin framhjá Yatton og ekkert stopp. Lestarstarfsmenn voru nefnilega í aðgerðum sem kallaðar voru ,,working to rule" (ein tegund borgaralegrar óhlýðni) og lestin sem ég var í var ein af morgunlestunum út af seinagangi starfsmanna. Var sagt að fara út í Weston-Supe-Mare og gerði það. Símaskráin í símaklefanum fyrir utan náði ekki til Congresbury, næsta bæjar við Yatton, og ég þurfti að taka morgunlest til Yatton nokkrum klukkutímum seinna til að komast í símasamband. 

Dramatíkin var mest um haustið 1974, þá höfðu foreldrar mínir flust til Frakklands og þangað heimsótti ég þau og fór svo með lestinni frá París til Belgrad á 2. farrými gömlu, sjúskuðu Austurlandahraðlestarinnar. Sex manns í hverjum klefa en Júgóslavi í okkar klefa fór allt í einu að vera æstur og sagði voz (sem þýðir lest) og búmm búmm og skellti saman hnúum. Við hugguðum þennan hrædda mann þar til uppúr miðnætti þegar lestin nam staðar rétt utan við Zagreb og okkur var vísað út og sagði að húkka okkur lest áfram. Það hafði sem sagt orðið eitt af stærri lestarslysum sögunnar, sú lest var að koma á móti okkur, og línur báðar leiðir lokaðar. 

Eftir dvöl í Belgrad í sömu ferð og stopp í Búdapest var ég í lest gegnum Tékkóslóvakíu (sem enn var eitt land) um miðja nótt þegar uppgötvaðist að ég var vesturlandabúi en lestin fór um landamæri sem voru ekki ætluð okkur. Klukkan þrjú stóð ég því á brautarstöð við rætur Tarta-fjalla. Sagan var lengri en verður ekki rakin hér frekar.

Svo held ég bara að ég hafi ekki lent í að vera vísað úr lest aftur fyrr en ég var að vinna hálfa vikuna í Kaupmannahöfn og hinn helminginn á Íslandi lengst af vetrar 2001. Átti þetta fína klippikort sem ég notaði í lestina frá Dybbölsbro og til Austur-Bröndby. Nema í eitt sinn, þá virkaði sjálfvirki klipparinn ekki og ég var böstuð í lestinni í einni af tugum ferða þann veturinn og eina skiptið sem klipparinn stóð á sér. Í stað sektar var mér vísað út í Valby og sagt að klippa kortið þar og taka svo næstu lest, sem ég gerði.

Víkur þá sögunni til Southampton 2019. Var á leið til Poole með dóttur minni og vinkonu hennar um niðdimmt kvöld og sagði eitthvað um að mig hefði alltaf langað að stoppa í Southampton. Jamm, það var eins og við manninn mælt, við stoppuðum einmitt þar og var vísað út. Lestin fór ekki til Poole þessa nóttina og stoppið stóð reyndar til hádegis næsta dag. Ungur maður hafði klifrað upp í mastur við teinana og ætlaði að kasta sér niður. Vanur samningamaður var að reyna að tala hann til og það var ekki fyrr en á hádegi daginn eftir sem aftur var hægt að setja lestarferðir í gang. Því miður hafði þessi saga endað illa. 

Og um daginn var ég á leið frá Glasgow til Ayr en lestin stoppaði í Prestwick og fór ekki lengra. Ástæðan: Eldsvoði á lestarstöðunni í Ayr. En um það fjallaði næsta blogg á undan þessu. 

Tek fram að ég hef margoft farið í lest án þessa að vera vísað út. 

 


Skroppið til Skotlands

Skrapp til Skotlands, sem er ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Margir skreppa til Skotlands, sumir eru skotnir í Skotlandi, eins og ég, upplýsti það held ég í nýlegu bloggi. Finnst ég samt svolítið eins og svæðisfulltrúi Forrest Gump að þessu sinni. Lenti á Edinborgarflugvelli og þar var ögn lengri röð en ég bjóst við, samt ekkert átakanlegt miðað við þær hryllingsfréttir sem sagðar voru af þessu ástandi í kvöldfréttum ýmissa miðla. Sem sagt engir sjálfvirkir vegabréfaskannar í öllu hinu sameinaða kóngsveldi virkuðu þennan daginn. Við vorum varla meira en 20 mínútur að komast í gegn, en fólkið í fréttunum almennt um 3 klukkutíma. Minnir svolítið á það þegar við fjölskyldan ókum gegnum Heklu-vikur, 20 cm þykkt lag í gosi dagsins, á leið okkar úr Hrauneyjarfossi um árið. Ég hringdi auðvitað okkar 20 cm vikurlag samviskusamlega inn til vina minna á fréttastofu útvarps, en þar hafði fólk þegar fengið betra tilboð. 

Ringlureið á flugvöllum

Stoppaði stutt í Edinborg, of mikið rok fyrir minn smekk (og ég sem hafði ríghaldið í stýrið um morguninn til að fjúka ekki með bílnum mínum út af Reykjanesbrautinni, fljót að gleyma). Tók nokkrar myndir, auðvitað af Scotts Monument, en ,,been there - done that” svo ég fór ekki upp.

IMG-4067 (2)

Glasgow tók mér opnum örmum, en mig var farið að gruna að eitthvað væri í gangi þegar grænröndóttir unglingar fylltu lestarvagninn seinasta spölinn. Afskaplega glaðir. Þegar til Glasgow var komið var sem sagt borgin full af stuðningsmönnum Celtic að fagna 5-0 sigri yfir Aberdeen og bikarnum, skoska líklega. Íslenskir fjölmiðlar höfðu bara alls ekkert tekið eftir þessu. Mikill viðbúnaður var í borginni og er á daginn leið voru æ fleiri komnir úr grænröndóttu peysunum, berir að ofan, öfurölvi, sumir jafnvel blóðugir og þá var hjálparsveitin mætt í gulum vestum, alvön, að stumra yfir þeim, einhverjum var keyrt um í innkaupakerrum og verslanirnar við Argyle Street lokuðu dyrum sínum einhverjum klukkustundum of snemma.

IMG-2264 (2)

Náði samt í Cass Art og einhverja Daniel Smith vatnsliti, enda var sú búð í hliðargötu og varin verktakapöllum. Caffé Nero var hins vegar opið og óhaggað með öllu. 

Celtic aðdáendur á skralli

Ákvað daginn eftir að elta sólina, þrátt fyrir að borgin bæri timburmennina vel, og setti stefnuna á Ayr. Vefmyndavélar lofuðu mátulegum skammti af sól þar, með fullri virðingu fyrir glennunum sem voru í Glasgow. Þegar við áttum skammt eftir til Ayr fórum við um Prestwick. Aha, hér þarf ég einhvern tíma að stoppa hugsaði ég. Þetta var nefnilega aðalflugvöllurinn þegar mamma og Ólafur fóstri minni voru við nám í Skotlandi, og hef heyrt mikið um völlinn talað. Næsta brautarstöð á eftir flugvellinum var Prestwick Town, og þá heyrðist gjalla í hátölurum lestarinnar: Vegna elds á brautarstöðinni í Ayr höldum við ekki lengra að svo stöddu. Förum áfram þegar búið verður að slökkva eldinn. 

Eldur í Ayr

Ég var meðal þeirra fyrstu  sem ákvað að láta þetta bara duga. Sá á strollunni sem kom smátt og smátt upp brekkuna frá brautarstöðinni að fleiri höfðu tekið sömu ákvörðun. Nennti ekki að bíða í 37 mínútur eftir strætó til Ayr, eins og þeir sem áttu eiginlegt erindi þangað urðu að gera. Ég var bara að leita að sólinni og hún var fundin, fann líka indælis veitingahús þar sem ég gat vatnslitað varnarlaust fólk sem naut sólarinnar með mér. Var að vísu svolítið maus að komast með strætó til Glasgow en ég var heppin. Einhverjir tugir á síðari stoppustöðvum ekki eins heppnir. 

IMG-2322

Og þegar þessi pistill var skrifaður sat ég með litla, sæta lyklaborðið við símann minn og hamraði þetta inn. Þá var ég búin að vera í Skotlandi í einn og hálfan sólarhring. Ákvað samt að birta pistilinn ekki fyrr en ég væri komin heim. Held að svona uppákomur styðji þá ákvörðun mína að ferðast oftast ein.

IMG-2332 (2)

Yfir borðum þegar ég var að skrifa þetta vomaði mávaskratti sem ætlaði eflaust að grípa pítsusneið eða samloku úr hendi eða munni einhvers gestanna, eins og mávurinn sem fór í koddaslag við mig í Haag í fyrra. Margt gerist í ferðum. 

 

 


Sólarferðir á óvænta staði og ljúga veðurfræðingar?

Hef farið í sólarlandaferðir á furðulegustu staði, minnisstæðust líklega hitabylgjan sem við Ari lentum í í Hamborg kringum afmælið mitt 2016, í fyrstu af mörgum heimsóknum mínum til þeirrar góðu borgar eftir Hamborgar-árið mitt, ári fyrr. Þegar ég var þar var veður oftast bærilegt, enginn almennilegur vetur þótt ég flyttist þangað í byrjun janúar, en heldur ekki neitt skrifstofufárviðri um sumarið, enda hefði verið erfitt að vinna alla daga á svölunum góðu. Í byrjun júní 2016 sýndi Ara-hitamælirinn góði í Winterhude hins vegar ekkert nema 36 gráður.

2023-05-18_18-40-17Sólarlandaferðin mín til Bornemount í Englandi fyrir fjórum árum er líka minnisstæð. Stuttbuxnaveður allan tímann. Peter frændi minn frá Nýja-Sjálandi sem býr í Reading kvartaði sáran undan hitanum þótt ég haldi að hann hafi ekki farið yfir 30 gráðurnar þann daginn. 

Þegar við Ari fórum til Grænlands í byrjun september eitt árið var hlýjasta borg ,,Evrópu" Nuuk þann daginn og okkur var sannarlega sagt frá því. Við reyndar aðallega að skoða Bröttuhlíð en þar var dágóður hiti og sömuleiðis er kvölda tók í Dal blómanna. Það var þó ekki beinlínis sólarlandaferð því sólin skein ekki allan daginn. 

Þá er 27 stiga hitinn á Hamarsvellinum í Borgarfirði í júlí 2014 enn minnisstæður, en ég kláraði bæði mitt vatn og eitthvað frá meðspilurunum af því tilefni. Á Snæfellsnesi sama dag var ekki nema 14 stiga hiti. 

Nú skoða ég grimmt veðurspár fyrir hvítasunnudag, en þá ætla ég að bregða mér af bæ, ein að vanda. Mun ekki gefa upp áfangastað að svo stöddu, en svona er langtímaspáin á Holiday-Weather. Skyldu veðurfræðingar Holiday Weather ljúga (eða ekki)? Þar er efinn. 


Pínulitlu, mikilvægu ferðaminningarnar

Finnst það líklegt að öðrum sé eins og mér farið, að eiga sér einhverjar pínulitlar en mikilvægar ferðaminningar. Í Evrópuferðinni okkar Ara árið 1987 stóluðum við á að finna laus herbergi til leigu frá Hamborg um Ítalíu og Dalmatíuströndina, sem nú er í Króatíu. Horfðum á tennis í setustofu á gististað í afskekktum bæ rétt áður en við vorum komin til strandarinnar, fórum svo til herbergis okkar og þar beið okkar kertaljós og kanna með vatni í, skál við hliðina til þvotta. Vöknuðum við heita haustsólina og dýrindis útsýni yfir hafið frá klettunum þar sem við höfum stoppað kvöldið áður.

IMG-3965a

Ferðalög á þessum tíma voru ekkert airbnb og heldur engir farsímar. Þetta síðarnefnda hefði getað orðið erfitt þegar ég fór í úthverfastórmarkað í Veróna, sem opinn var til átta eða níu að kvöldi, meðan Ari skrapp eftir bensíni. Það var orðið dimmt þegar lokaði og ekki bólaði á Ara. Afgreiðslumaður vildi hinkra ögn lengur frekar en skilja mig eftir eina, með vetrarúlpurnar á krakkana sem voru góssið sem við stefndum á að kaupa. Ég sendi hann fljótlega heim til sín og nokkru síðar kom Ari minn akandi. Ég hafði aldrei áhyggjur af því að hann rataði ekki, það var ekki vandamálið, heldur frekar ítarleg umferðateppa sem hann hafði lent í.

Umhyggjusemi þjónanna á Krít, þeirra Nico og Nico, sem linntu ekki látunum fyrr en ég keypti mér hatt til að verja mig fyrir vorsólinni 2018, það þurfti að passa þessa skrýtnu konu sem var ein að ferðast. Gleði þeirra sömu þegar ég mætti með eiginmann upp á arminn í október sama ár. 

Landamærin í Basel, þegar ég var að heimsækja Gunnlaug frænda og kom frá Prag, hélt ég væri í Basel í Sviss. Nei, ekki alveg, Basel í Þýskalandi. Og hvernig átti ég að komast til Sviss? Jú, niður þennan stiga, til vinstri, beint áfram og svo aftur til vinstri og upp þann stiga. Árið var 1974 og ekkert vesen á þessum landamærum. Næst þegar ég kom til Basel nam lestin staðar í frönsku Basel og ég fór yfir teinana til Sviss í það sinnið, ekki undir. 

Nýjasta örminningin? Hún er aðeins um tveggja mánaða gömul. Jú, ég kann vel að meta að vera í hlýju loftslagi. Og það er eitthvað ólýsanlega heillandi við að rennbleyta vatnslitapappír í gosbrunni svo hann tolli á spjaldinu sínu, þegar límbandið gleymist heima á hóteli. En betra að vera ekki of lengi að mála myndina, jafnvel 300 gramma, gegndrepa pappír þornar fljótt. Og þú setur ekki hálfmálaða vatnslitamynd ofan í gosbrunn, nema þér sé sérstaklega illa við hana. 

IMG-2993


Landasafnarar, álfusafnarar og: How do you like Portales?

Mér finnst allaf gaman að lesa viðtöl við víðförult fólk. Sumir virðast hreinlega gera út að ,,safna" löndum eða heimsálfum. Aðrir hafa átt erindi mjög víða. Þótt ég hafi verið svo lánsöm að geta ferðast út um hvippinn og hvappinn, tvö stök rúmlega mánaðarlöng ferðalög vega þar þyngst, þá er ég afleitur landasafnari. Kannski hefur ein dagsferð flokkast undir að ,,bæta landi í safnið" og hún var ekkert sérstaklega áhugaverð. Bara ágæt. Þá vorum við mamma í Singapore, lógískur áfanga- og hvíldarstaður á leið til Möggu frænku á Nýja-Sjálandi. Dvöldum þar í fimm daga og þegar mamma sá að boðið var upp á dagsferð yfir landamærin til Malasíu (Johor Bahru) þá leist báðum okkur vel á það. Ágætis leiðsögumaður, gaman að sjá hvernig mjólkin rann út gúmmítrénu sem við vorum teymd að, leist ekkert illa á borgina, sem ég sé nú að er mikil menningarborg skv. gúggli. Við urðum ekkert sérlega varar við það. Dagsferð er dagsferð og ég hef farið í margar áhugaverðari.

unnamed (1)

En áhugi minn hafði vaknað á Singapore, hverfaskiptingunni þar eftir trúarbrögðum (áberandi alla vega þá, um 1990) einkum hverfinu sem við vorum í sem skartaði fallegri mosku við endann á götunni sem lá upp frá hótelinu okkar. Þannig að þegar ég átti aftur leið um Asíu nokkrum árum síðar, valdi ég að skoða Singapore betur í stað þess að bæta löndum ,,í safnið" og gerði það, á leið, aftur til Möggu frænku og síðan á 8 daga ráðstefnu í Ástralíu. 

unnamed (2)

Mitt flökkueðli dregur mig stundum á nýjar slóðir, hægt og bítandi, en ég sæki líka mjög í að fara aftur (og aftur) á staði sem toga sérstaklega í mig, og ekki alltaf af sömu ástæðu. Þannig hef ég komið óeðilega oft til Portales í Nýju Mexíkó, af því þar átti ég systur, árum saman. Þegar íbúar Portales (alla vega aðfluttir kennarar við háskólann þar) spyrja þig: How do you like Portales? þá eru þeir ekki að fiska eftir svörum sem Íslendingar eru vilja fá  við hinni sígildu spurningu: How do you like Iceland? Nei, þvert á móti. Þarna er nefnilega almenn kurteisi að svara: Einstaklega óáhugaverður bær, ekkert að sjá, fátt að gerast. Sumir mundu bæta við: 12 kristileg skólasamtök við sömu götu. Bærinn er í jaðri biblíubeltisins, og alls engin Santa Fe, sem talin er áhugaverðusta borg Nýju-Mexíkó með sínar Santa-Fe bláu hurðir og gullfallegu hús og landslag. Mér finnst Portales samt bara fínn bær, eitt gott kaffihús, þar fékk ég líka æðislegt taco á bílaverkstæði og gönguleiðir (ekki gangstéttir samt) góðar. Veðrátta oftast góð. 

218188_1056101601222_833_n

Staðirnir sem toga í mig reglubundið eru elsku London mín, sem ég hef heimsótt ótal sinnum, Hamborg, sem ég kynntist seint af viti, en tók ástfóstri við og heimsótti árlega eftir að ég bjó þar lungann úr árinu 2015, Seattle sem mér finnst skemmtilegust þeirra amerísku borga sem ég hef komið til og Evrópa suður- mið- og austanverð, en þangað fór ég í viðburðaríka ferð þegar ég var 22 ára þegar þetta voru kommúnistaríki og hræbillegt að ferðast þar um með réttan stúdentapassa. Hef notað hvert tækifæri til að heimsækja löndin aftur (sem hefur reyndar fjölgað eftir hrun Sovétsins). Amsterdam er að stimpla sig inn, enda tíðari ferðir þangað eftir að sonur okkar fluttist þangað. Jú, og svo auðvitað fjölskyldufrí á Gran Canaria, sem voru árviss viðburður í næstum áratug. 

Þegar ég tek þátt í leikjum á Facebook, þar sem ég merki á landakort til hvaða landa ég hef farið vantar áberandi mikið inn. Landmassann í Rússlandi og gervalla Suður-Ameríku. Hvort tveggja svæðið hefði ég hæglega getað verið búin að ,,afgreiða" ef ég stæði mig í stykkinu sem landa- og álfusafnari. Læt öðrum það eftir, ofar á listanum hjá mér er að koma til annarra staða sem toga mig meira, aðallega gamalla, en líka nýrra ef guð lofar. 

https://tomi5.github.io/interactive_visited_countries_map/

 


Skotin í Skotlandi - minningar - en svolítið langt síðan seinast

Önnur utanlandsferðin mín, sú sem kom næst á eftir hálfs árs dvöl okkar mömmu og ömmu í Andalúsíu heilum sjö árum fyrr, var til Skotlands. Það var fermingarferðin mín, átti að vera í staðinn fyrir veislu(r) en reyndist viðbót við ótrúlega fjörleg veisluhöld sem ég hef gert skil í öðrum pistli.

Skotland var ekki áfangastaður af tilviljun, heldur hvorki meira né minna en staðurinn þar sem mamma kynntist Ólafi fóstra mínu, þriðja eiginmanni sínum og þeim eina sem ég fékk að velja. Við vorum báðar sammála um að það hefði verið vel valið. Ólafur var kominn vel yfir tvítugt og var við nám í Edinborgarháskóla og mamma unglingur á fínum kvennaskóla, St. Denis, þar sem var bæði kuldi og matarskortur á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hún bjó hjá Gunnu Watson, vinkonu ömmu, í fríum, en eyddi öllum stundum sem hún gat heima bjá Sigursteini Magnússyni konsúl í Edinborg, og þangað komu allir íslensku stúdentarnir við hvert tækifæri. Magnús (Bússi) Magnússon sonur hans átti eftir að afla sér frægðar gegnum þáttinn Mastermind síðar og dóttir hans, blaðakonan Sally Magnússon hefur líka vakið athygli fyrir sín skrif. En það gerðist seinna. 

IMG_5371 (2)

Mamma var fyrst í Glasgow og sótti kúrsa í Glasgow School of Art og gerði það nógu gott til að vera boðin skólavist ef hún héldi áfram, en amma og afi ákváðu að hún ætti að fara til Edinborgar til Gunnu og Alisters og það varð úr. Hún var mjög ósátt við það, en átti ekki annarra kosta völ. Mögulega voru skólagjöldin í Glasgow of há (það var kenning mömmu), þótt amma og afi væru ágætlega stæð voru þau að byggja sér hús í Faxaskjóli þegar þetta var. En hún var líka bara 15-16 ára. Ólafur úskrifaðist frá Edinborgarháskóla sem náttúrufræðingur og sneri aftur til Íslands og þá var mamma orðin eldri, svo hann gat boðið henni á stúdentaböll, en svo kom að því að hún giftist fyrri eiginmönnum sínum og Ólafur bara hinkraði við eftir henni. 

utskriftEdin (2)

Við litum við í skólanum í Glasgow fermingarferðinni minni, haustið 1966, en þar var fátt að gerast svona snemma hausts, þótt andi MacIntosh svifi óneitanlega yfir vötnunum. Svo ég var drifin í verslunarleiðangur í Sauchiehall Street og fataði mig upp með fancy fötum þegar sixties tískan var í algleymingi, áður en hippatískan hélt innreið sína. Síðan var haldið til Edinborgar með viðkomu í einhverjum köldum köstulum og þótt ég ætti síðar eftir að nema sagnfræði er ég mjög kræsin á kastala og kann alls ekki að meta þá alla. Edinborgardvölin var ótrúlega skemmtileg. Edinborgarkastali, já óhjákvæmlega, eins Scott Monument, lofthrædda ég elska að fara upp í turna. Svo hittum við Hermann Pálsson skólabróður Ólafs fóstra míns, sem þá hafði verið háskólakennari þarna í 16 ár og átti alla sína starfsævi í Edinborg. Þá fór að vera virkilega gaman. Um hádegisbil fór hann með okkur á gamlan pöbb á horni í lítilli brekku og gömlu húsi. Þar var ekki margt fólks, við fengum okkur eitthvert snarl sem var eins og barmatur bara allt í lagi. Þarna var líka grannvaxinn gamall karl (hefur áreiðanlega verið vel yfir fimmtugt) og lét lítið yfir sér. Ja, þangað til hann greip nærstaddan kúst og fór að dansa við hann eftir lágværri bakgrunnstónlist. Svona listavel, margir snúningar og kústurinn lét vel að stjórn. Svo kláraðist lagið, hann skilaði kústinum, hneigði sig kursteislega og hélt áfram að drekka bjórinn sinn, eða hvað það nú var sem hann var með í glasinu. Ekkert okkar sagði orð, það átti ekki við.

skotlandsferd

Næst fórum við að heimsækja vinafjölskyldu í Aberdeen, the Harways. Þau bjuggu aðeins fyrir utan borgina, áttu einhvern slatta af börnum (ekki eins mörg og önnur vinafjölskylda sem gisti með börnin sín 8-9 hjá okkur um svipað leyti á leið frá Ameríku til Englands). Tvær voru á mínum aldri, Ayliffe (sama nafn og Ólafur, sem var nafn fóstra míns, héldu þau fram), hún var árinu eldri en ég, Morwenna var árinu yngri og við áttum meira skap saman. Þær voru elstar og voru með risastórt háaloft til umráða og þar gisti ég. Húsið var mjög stórt, svolítið kalt á kvöldin en veðrið almennt gott þessa septemberdaga. Mér var boðið með í reiðtúr þegar uppgötvaðist að ég hafði gaman af hestamennsku og átti innkomu í reiðskólann og hestaleiguna á Bala hjá henni Heidi, sem var með hesta á beit ofan við húsið okkar. Bara að að klífa upp þennan risastóra hest sem mér var fenginn var afrek. Hann var illa hastur, og það virtist eiga við um hina hestana líka, því systurnar hossuðust ekkert minna en ég. Við fórum mest fetið um skógarstíga og þetta var hinn ljúfasti reiðtúr, en við fengum ekki að hleypa þessi klunnum neitt, rétt náðum smá brokki á beinu köflunum á stígunum, og varla það þó.

Við fórum líka á ballettsýningu hjá yngri systur þeirra, eins og fólk gerir þegar það heimsækir vini og ættingja. 

Næstu árin ferðaðist ég talsvert með Gullfossi og fannst alltaf dagsstoppið í Leith mjög heimilislegt, en þá var ég eldri, sjálfstæðari og búin að uppgötva Bítlana. hippaföt og búðaferðir. Reyndar kom Bítlarnir við sögu í þessari fyrstu Skotlandsferð minni, því á litla hótelinu okkar í Claremont Cresent, var þetta fína sjónvarp og þar uppgötvaði ég tónlistarvídeó úr Revolver sem var nýútkomin og varð alveg húkkt, einkum á Eleanor Rigby. 

Síðan hafa Skotlandsferðir mínar verið allt of fáar og stopular, en ég mun bæta úr því og pósta aðeins nýrri myndum, bráðum. 


Kæra Krít, taka 2

Eins og fram hefur komið hér á síðunni hef ég tekið miklu ástfóstri við eyjuna Krít og fór þangað fjórum sinnum frá nóvember 2016 til júní 2020, þar af tókst mér einu sinni að fá Ara minn með. Fornleifarnar í Knossos hef ég skoðað í tvígang, í báðum tilfellum þegar fáir voru þar á ferli og tók góðum ráðum og fékk mér leiðsögn, hana Alexöndru í fyrra skiptið sem einkaleiðsögumann, en í seinna skiptið vorum við Ari í öðrum af tveimur, litlum hópum á svæðinu, þeim enskumælandi, en hinn var grískumælandi. Eins og mér finnst nú fallegt að skoða fornleifar þar sem málning fortíðarinnar hefur máðst út, þá er svolítið hressilegt að sjá að á Krít hafa menn ekki hikað við að endurmála hluta þeirra fornminja sem þar eru varðveittar, reyndar er varðveisluaðferðin rakin til Sir Arthur Evans, sem á mestan heiður á endurheimt Knossos að öðrum ólöstuðum fyrir rúmlega einni öld eða svo og hélt þar áfram verki fyrirrennara síns, Minos Kalikairinos, sem sjaldan er getið. Fann skemmtilega grein um málið, af því sagnfræðingurinn í mér vildi fá að vita aðeins meira en hún Alexandra sagði mér, sem var þó heilmargt. 

https://www.khanacademy.org/humanities/ancient-art-civilizations/aegean-art1/minoan/a/conservation-vs-restoration-the-palace-at-knossos-crete

IMG_5508

Það er ekkert ósennilegt að ég eigi eftir að blogga meira um Krít og vonandi að fara þangað enn einu sinni (tvisvar ... þrisvar ... ). Til dæmis uppgötvaði ég borgina Chania ekki strax, en dvaldi þar hjá henni Despoinu seinast þegar ég kom við á Krít, í vikunni eftir að ýmsum samkomutakmörkunum var aflétt þar, tímabundið auðvitað. Gamli bærinn er sérlega skemmtilegur og þar er fullt af stórfínum gististöðum, kaffihús á hverji horni og fallega, rómverska höfnin er umvafin ágætis veitingahúsum og skemmtilegu mannlífi, en við moskuna eru alls konar menningarviðburðir tíðir og þeir höfða meira til íbúanna sjálfra, sem leita í götu fyrir ofan hana þegar þeir fara sjálfir út að borða (og drekka). Þangað beindi hún Despoina mér auðvitað, þótt hún væri ekkert að dissa veitingahúsin við höfnina góðu, þar sem sjórinn er svo tær að fiskarnir næstum glápa á móti á túristana sem eiga leið þar hjá. Mér skilst að það geti orðið ansi heitt þarna stundum á sumrin, en ég hef undantekningarlaust verið í mjög þægilegu loftslagi í október/nóvember og maí/júní. Meira seinna, býst ég við :-)

33463154_10216426664877625_1943977712284598272_n (2)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband