Ævintýri á gönguför - um listina að ganga lengra

Held það sé óumdeilt að ganga er ein allra besta alhliða hreyfing sem hægt er að stunda. Mátulegt álag, hægt að ganga hver á sínum hraða (þeir sem þurfa göngufélaga ættu að huga að því), rösklega ef markmiðið er brennsla, hægt ef það hentar betur og allt þar á milli.

Mér hefur alltaf þótt frekar gaman að ganga, en það háir mér að vera svolítið praktísk. Af hverju að ganga ef það er fljótlegra, betra, hlýrra, svalara, hentugra og hvaðeina að aka sjálf eða nota almenningssamgöngur? Sumir fá sér hund til að ,,neyðast" til að fara út að ganga. Það trikk hentaði mér aldrei og Tinni okkar fékk sína hreyfingu sjaldnast í boði mínu. Hins vegar læt ég hæglega litla, hvíta golfkúlu plata mig í alls konar gönguferðir og mest hissa að ég dreif ekki fyrr í að taka upp þá iðju. En í tímahraki fyrri æviára var líklega markvissara að stunda skvass og tennis, eins og ég gerði í allmörg ár og skemmti mér konunglega. ,,Þú vilt bara leika þér," sagði ein ágæt kona við mig fyrir nokkrum árum. Alveg rétt.

Fallegar leiðir eða ekki

Blessaður snjallsíminn hefur heldur betur ýtt undir göngufíknina mína. Nú þarf ég ekki að vera stödd í erlendri borg til að finna hjá mér þörf fyrir að kanna umhverfið og taka myndir. Mér finnst að vísu enn skítt að stundum er fólk að hringja í myndavélina mína, en sem betur fer eru sífellt fleiri farnir að nota miklu heppilegri samskiptamáta, enda af nógu að taka. Eins og ég gat um í seinasta bloggi þá elska ég að ganga um nýjar og gamlar slóðir í fallegum og/eða áhugaverðum borgum, gjarnan í góðu veðri en stundum er það ekki skilyrði. Hamborgarárið mitt gekk ég auðvitað alltaf eitthvað á hverjum degi, hvernig sem viðraði, en eftir fyrsta mánuðinn þegar ég bjó í afleitlega óáhugaverðu hverfi, fann ég íbúð í gullfallegu hverfi, Winterhude, og eftir það var ég óstöðvandi að gera út þaðan, eða frá vinnustaðnum í Hafencity fyrstu vikurnar og eftir það frá miðborginni. Alltaf var eitthvað nýtt að sjá. Út frá vinnunni minni í Reykjavík er hægt að velja gullfallegar gönguleiðir (til austurs) eða frekar leiðinlegar (til vesturs, nema gengið sé alla leið í bæinn). Mér finnst best að fara í fallega göngutúra, en ýmsir eru alveg sáttir við að fara sama hringinn í vitlausa átt dag eftir dag. Misjafn smekkur og ekkert annað.

Álftanesið

Það tók mig sem sagt dálítinn tíma að færa þennan dásamlega Hamborgar-lífsstíl heim. En nú er ég farin að finna góðar gönguleiðir, ekki bara út frá vinnunni minni, heldur líka með því að gera út í nokkrum uppáhaldshverfum. Oft hef ég tekið göngurispur hér á Álftanesi, enda margt fallegt að sjá, þegar ég var unglingur gekk ég oft niður að sjó, einkum ef hugurinn var æðandi aðeins of hratt, og þá var bara kostur að rölta í roki og rigningu, en auðvitað vel klædd. Það var líka gott að eiga vini á Suðurnesinu, í tvær áttir, og alltaf gengum við á milli, svona 20 mínútur hvora leið ef ekkert glapti hugann. Væri ég á leið í Vesturbæ gekk ég bara rakleitt fram og til baka, en lægi leiðin í Gerðakot vorum við vinkonurnar að rölta fram og til baka að fylgja hver annarri heim lengi frameftir kvöldi. Og oft var Álftanesvegurinn allur genginn, ef ekki hentaði að bíða eftir strætó eða Ólafi fóstra mínum eftir skóla. Sjaldnar alla leið úr Reykjavík, en það kom þó fyrir.

Áhrif búsetu

Á miðbæjar- og menntaskólaárum var oft lang þægilegast að fara ferða sinna fótgangandi og svo kom fyrir að leiðin lá í Keflavíkurgöngu, en ég gerðist aldrei svo fræg að ganga hana alla. Lengst í einum spretti fór ég í Kúagerði, en þá var eitthvert skólaafmæli um kvöldið og tíminn gafst ekki í meira. En yfirleitt gekk ég úr Hafnarfirði eða Engidal og í bæinn og einhvern tíma, líklega oftar en einu sinni, með vagn eða kerru og krakkana með.

Eftir að ég flutti hingað aftur fyrir þrítugt, þá hafa skipst á göngutímabil og önnur minna virk. Á seinni árum hef ég sinnt gönguhópum í sjálfboðastarfi af og til og leitt hingað og þangað um nesið, finnst það alltaf gott. Nokkur ár gekk ég ein míns liðs kringum Bessastaðatjörn áður en varpið byrjaði, gjarnan á skírdag. Það voru alltaf fínir göngutúrar, og svo er ég eins og fleiri Álftnesingar stundum í smágönguferðum, en ef þannig viðrar þá er stundum meira spennandi að fara á golfvöllinn.

Úti í náttúrunni með lofthræðslu í farangrinum

Frá því ég hætti að vera virk í skátunum á unglingsárum hef ég lítið gengið um óbyggðar slóðir. Mér finnst íslenska náttúran vissulega falleg, en nálgast hana helst á bíl og geng svo styttri vegalengdir í áfangastað. Þegar ég var á Úlfljótsvatni þriðja sumarið mitt, 12 ára gömul, þá fékk ég vissulega vænan skammt. Við fórum vikulega í fjallgöngu á Búrfell í Grímsnesi og fyrir 2. stigs prófið þurftum við að ganga 35 km meðal annars eftir einstigi á gljúfurbarmi. Ég er hrikalega lofthrædd og varð eiginlega nokkuð frábitin svona ferðum upp frá því. Ég hætti líka að fara til Seyðisfjarðar á sumrin um svipað leyti þegar pabbi og konan hans fluttu í bæinn. Þar fannst mér reyndar margar gönguleiðir skemmtilegar kringum bæinn, einkum upp í Botnatjörn.

Platan keypt fyrir strætópeninginn

Þegar ég er í fríi finnst mér fátt skemmtilegra en að vera stödd í erlendri borg í góðu veðri og ganga út um allt. Fyrir utan gömlu borgirnar ,,mínar" London og Hamborg, þá finnst mér sérlega gaman að ganga um í Montreal, Oslo, Seattle og New York. Nokkrar gönguminningar standa þó upp úr héðan og þaðan. ,,Fjallganga" upp stiga í haustlitaferð í New Haven, rölt um Georgetown í Washington milli bókabúða með gamla vinnufélaga mínum, Jóni Ásgeiri Sigurðssyni dagspart fyrir allt of löngu, en það voru fyrstu kynni mín af bókakaffihúsum. Gönguferð úr gamla hverfinu mínu í London, írska hverfinu Kilburn, þegar ég ákvað að eyða síðasta peningnum sem ég var með á mér í plötu sem ég hafði lengi leitað að (Robert Palmer Johnny and Mary), en það þýddi að ég þurfti að rölta þennan klukkutíma gang aftur í bæinn. Gönguferð á fund við Ingibjörgu í Auckland á Nýja Sjálandi, en hún bjó í fallegu hverfi með blúnduhúsum um eins og hálfs klukkutíma fjarlægð frá hverfinu hennar Möggu frænku. Þar sem strætóverkfall var í borginni þá gekk ég báðar leiðir og ekki endilega þá stystu hvora leið. Og annar bókabúða-/kaffihúsarúntur með Nínu systur í London, þegar við uppgötvuðum að vinir og ættingjar voru ekkert mjög áfjáðir í að þvælast með okkur í bókabúðir og áttum það sameiginlegt, það var eiginlega þriggja daga göngutúr.

Ganga til skemmtunar eða skyldu

Í tíu vetur vöndum við Ari komur okkar til Kanarí á veturnar, og þar var mikið gengið, því hvorugt okkar var mikið fyrir að liggja í sólinni. Alls konar gönguferðir og yfirleitt stefnulaust, strætó stundum í liði með okkur og gert út frá ýmsum áfangastöðum. Stundum gengum við ströndina milli bæjarhluta, framhjá svokallaðri grátittlingaströnd, en það var ekki uppáhaldsleiðin okkar. Held það hafi farið svolítið í taugarnar á okkur þegar við komumst að því að það var keppikefli (og þegnskylda) margra Kanarífara að það ,,yrði" að fara þessa leið á hverjum degi, ef ekki tvisvar á dag. Ágætis gönguleið, en ekki á hverjum degi.

Gönguminningarnar mínar eru óteljandi og kannski bæti ég fleirum í bloggsarpinn síðar.

 


Síki, mannlíf og gömul hús

Í þessari viku kom ég í fyrsta sinn til Írlands, í snöggri ferð til Dublin. Það er að vísu alveg stórundarlegt, hef bara ekki átt erindi þangað. Þegar menntaskólaárgangurinn minn fór í fyrsta sinn í fimmta bekkjarferð til útlanda var það til Írlands. Í þá ferð fór ég ekki, bæði vegna blankheita og líka vegna þess að ég hafði dvalið í Englandi í hálft ár árið á undan. Á þeim árum útilokaði svoleiðis lagað nánast að rápa meira næsta ár. Nú er ég komin á þann aldur að geta leyft mér að minnka vinnu, eða alla vega að gera hana sveigjanlegri en áður, og stökkva jafnvel á virkum dögum á nothæf tilboð út í bláinn og næstum án erindis. Þess vegna var ég allt í einu komin til Dublin. Á heimleiðinni heyrði ég í kring um mig ávæning af því hvað aðrir Íslendingar höfðu verið að gera á Írlandi og áttaði mig allt í einu á því að ég er ekkert að sækjast eftir því sama og margir aðrir í svona ferðum, sem er auðvitað besta mál. Fer ekki á víkingasöfn, krár, í bjór- eða viskíverksmiðjur, á leiksýningar (það geri ég reyndar í London) né söfn og gallerí, nema ég viti af einhverju sérstöku sem ég ,,verð" að sjá. Og mér finnst ekkert gaman að fara í búðir, er venjulega fljót að afgreiða það sem ég ætla að kaupa (guð blessi Google frænda) í þeim búðum sem selja það sem mig vantar/langar í og get fengið handa mér eða öðrum. 

Allt frá því ég fór ein til Kaupmannahafnar 1967, þá fimmtán ára, bjó í London 1970, rápaði um Evrópu, mest austanverða, 1974 og fram til þessa dags þá gerist nokkurn veginn það sama þegar ég kem til nýrrar eða kunnuglegrar borgar. Ég rölti af stað, hoppa upp í strætó, finn falleg hverfi (alltaf kostur að sjá falleg hús og flest gömul) og bara geng um, skoða mannlífið, best finnst mér að finna vatn og þá gjarnan síki. Þar er oft skemmtilegasta umhverfið og mest að gerast. Datt auðvitað í lukkupottinn Hamborgarárið mitt, 2015, sem var alls ekki heilt ár, en þar er Alster-vatn og ótal síki auk hafnarsvæðisins og fallegum slóðum meðfram Elbe. Nokkrar myndir úr nýjustu ferðinni minni svona í lokin. IMG_2177 (2) 

IMG_2184 (2)IMG_2188 (2)IMG_2194 (2)IMG_2462 (2)IMG_2470 (2)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband